Sáttamiðlun
Sáttamiðlun ein elsta aðferð sem þekkt er til þess að leysa deilur milli manna
Skilgreina má sáttamiðlun sem aðferð til lausnar ágreiningi, sem aðilar taka sjálfviljugir þátt í með hjálp eins eða fleiri óháðra og hlutlausra sáttamanna. Aðilar komast sjálfir að samkomulagi um lausn ágreinings sem þeir meta viðunandi fyrir báða aðila í gegnum skipulagt og þróað mótað ferli. Sáttamiðlarinn á engan þátt í úrlausn málsins aðra en þá að hann leiðir aðila í viðræðunum. Með sáttamiðlun geta aðilar komist hjá langdregnum og oft erfiðum og kostnaðarsömum dómsmálum.
Forsenda sáttamiðlunar er að aðilarnir ákveða sjálfir hvort þeir taka þátt í sáttameðferðinni, hvort þeir vilja komast að samkomulagi og hvers efnis það verður.
Markmið sáttamiðlunar er að aðilar finni sameiginlega lausn sem allir aðilar telja vera viðunandi og ásættanlega.
Hlutverk sáttamiðlarans er að leiða aðila saman og aðstoða þá við að ná samkomulagi með því að hjálpa til við samskipti, leiða viðræður og gæta jafnræðis milli þeirra. Ábyrgð hans snýr að vinnuferlinu sem á að leiða til samkomulags eða afmörkunar á ágreiningsefninu.
Í sáttamiðlun er það hlutverk aðilanna sjálfra að leysa ágreininginn. það gera þeir meðal annars með því að koma á framfæri sínum sjónarmiðum, hagsmunum og áhyggjum með aðstoð sáttamannsins.
Ef þú vilt vita meira um sáttamiðlun má benda á heimasíðu Sáttar félags um sáttamiðlun þar sem m.a. má nálgast lög félagsins og siðareglur sáttamanna.
Talið er að hagsmunum barna sé almennt best borgið ef foreldrar ná sátt um foreldrasamstarf, bæði formlegt og óformlegt. Á þeim grundvelli, með ákvæðum í barnalögum nr. 76/2003 er foreldrum skylt að leita sátta um ágreining sinn áður en krafist er úrskurðar eða dómsmál höfðað um forsjá barns, umgengni eða dagsektir. Sjá ennfremur reglur sem settar hafa verið til bráðabirgða um ráðgjöf og sáttameðferð samkvæmt 33. gr. og 33. gr. a barnalaga
Börnin
Börn eru virkir þátttakendur í samfélaginu sem taka ber tillit til í öllum aðstæðum í samræmi við aldur þeirra og þroska. Hvort heldur sem er innan fjölskyldunnar, í skóla eða á öðrum sviðum, er það bæði rétt og skylt að hlusta á sjónarmið barna, hugmyndir, óskir og þrár við allar ákvarðanir sem þau varða. Mikilvægi þessa verður seint ofmetið þegar taka á afdrífaríkar ákvarðanir sem þau varða. Samtal þeirra sem taka ákvarðanir og sem ákvörðunin varðar er mikilvægasta tæki þess fyrrnefnda til að ná fram markmiðum sínum og þess síðarnefnda til að hafa áhrif á ákvörðunina.
Allir foreldrar vilja börnum sínum það besta. Í sáttamiðlun hefur þú möguleika á að veita þínu barni tækifæri til að koma í viðtal og koma afstöðu sinni á framfæri um leið og það, með kerfisbundinni hagnýtri aðferðafræði fagaðila, fær stuðning til að setja hlutina í samhengi og koma fram með þarfir sínar, væntingar, óskir og áhyggjur í tilteknum aðstæðum.
Gagnlegar leiðbeiningar fyrir foreldra um hvernig undirbúa má barn fyrir viðtal má finna á heimasíðu sýslumanna
Samningur um sáttmiðlun