Þórdís Rúnarsdóttir, félagsráðgjafi

Fjölskylduráðgjöf

Fjölskyludráðgjöf er fyrir ykkur sem viljið skapa bestu mögulegu skilyrði fyrir ykkur og börnin ykkar.

Í fjölskylduráðgjöf er litið til viðbragða hvers og eins fjölskyldumeðlims, einkenna hans eða vanlíðan sem þýðingarmikilla vísbendinga um samveru fjölskyldunnar og tengslin. Fjölskylduráðgjöfin gefur innblástur til mögulegra breytinga.

Fjölskyldur í dag eru fjölbreyttar. Um getur verið að ræða einstæða foreldra með börn, samsettar fjölskyldur með stjúpbörn, samkynhneigða foreldra, foreldra þar sem annað eða bæði eru af erlendum uppruna, hjá afa eða ömmu og svo mætti lengi telja. Alveg sama hvernig fjölskylda okkar er samansett, þá er hún það umhverfi sem við ölumst upp í og komum frá þegar við mætum heiminum.

Dýpstu og sterkustu tengslin sem myndast á ævi hvers einstaklings eru þau sem eru milli ykkar og barnanna ykkar. Það þýðir að einmitt þangað er að sækja mikivægar bjargir.

Það er enginn staður betri en þegar okkur líður vel saman innan fjölskyldunnar.

Þegar við eigum erfitt eða einhver í fjölskyldunni dafnar ekki getur það verið sársaukafullt og þungbært. Í slíkum aðstæðum getur fjölskylduráðgjöf verið hjálpleg til að takast á við knýjandi málefni hjá fjölskyldunni. Samtalið er mikilvægasta forsenda þess að skilja hvað aðrir upplifa og meina.

Það sem við getum unnið með í fjölskylduráðgjöfinni, er til að mynda þráin eftir nánd, barnið ykkar hefur fengið greiningu, ný fjölskylda, foreldra- og fullorðinshlutverk, áhyggjur af hvernig barnið ykkar dafnast, uppeldi og ábyrgð, ágreiningur milli unglinga og foreldra, vandi í skóla/leikskóla, veikindi og fleira.

Börn eru virkir þátttakendur í samfélaginu sem taka ber tillit til í öllum aðstæðum í samræmi við aldur þeirra og þroska. Hvort heldur sem er innan fjölskyldunnar, í skóla eða á öðrum sviðum er það bæði rétt og skylt að kalla eftir sjónarmiðum barna, hugmyndum, óskum og þrám varðandi allar aðstæður þeirra.

Fyrir sumar fjölskyldur mun eitt viðtal vera nóg, fyrir aðrar getur verið gagnlegt að eiga fleiri viðtöl, allt eftir aðstæðum.

Fjölskylduráðgjöf varir í 90 mínútur.